Svansvottun

Umhverfismálin eru á allra vörum og því gott mál að vekja athygli á þvi sem við gerum til að vinna að umhverfismálum. Stefna okkar er að draga úr umhverfisáhrifum starfsemi okkar í kaffibrennslu og kaffihúsum. Flokkun á sér langa sögu og eru allar mjókurfernur, flöskur, pappamál, bylgjupappi, pappír, kaffikorgur og annar lífrænn úrgangur flokkaður og sendur í endurvinnslu. Kaffitár vill vera góð fyrirmynd í umhverfismálum og sýna í verki að flokkun getur verið árangursrík og sjálfsagður hluti af daglegu lífi. Til að gera umhverfisverkefnið skemmtilegra meðal starfsmanna var settur á stofn vinnuhópur og merki verkefnisins hannað.Græna baunin var hönnuð af Þórdísi starfsmanni í brennslu.

Kaffihús Kaffitárs ásamt framleiðslueldhúsi þess hlutu Svansvottun í maí 2010. Við hjá Kaffitári sjáum það sem samfélagslega ábyrgð okkar að huga að umhverfismálum allt frá baun í bolla. Svansvottunin er liður í því að draga úr umhverfisáhrifum kaffihúsa okkar og þeirrar þjónustu sem við veitum þar. Sífellt fleiri velja umhverfisvottaða vöru og þjónustu og það eru forréttindi að vera eitt þeirra íslensku fyrirtækja sem vinna markvisst að því að gera betur í umhverfismálum.

Fyrstu 9 mánuði frá vottun hefur náðst  töluverð hagkvæmni í rekstrinum. Fyrstu tölur benda til þess að notkun einnota pappabolla hafi dregist saman um 20%.  Minni notkun pappabolla leiðir af sér fjárhagslegan ávinning í minni innkaupum og minni sorpkostnaði. Þrátt fyrir að á móti komi aukin vinna við uppvask í kaffihúsum, sem þannig dregur úr rekstrarlegri hagkvæmni, metum við ávinninginn mjög jákvæðan fyrir umhverfið.  Til að draga enn frekar úr notkun einnota pappabolla höfum við góða reynslu af því að bjóða viðskiptavinum að koma með eigin ferðamál fyrir kaffidrykki til að taka með sér út. Sú þjónusta mælist um 1% í dag og er sífellt að aukast.
Umhverfisstarf okkar beinist einnig að orkunotkun, sorpflokkun, innkaupum og notkun umhverfisvottaðra hreinsiefna, margnota umbúða og þjálfun starfsmanna. Á mörgum þessara sviða hefur náðst góður árangur í að minnka sóun og auka nýtingu aðfanga, samanber notkun einnota pappabolla.

Afgreiðslutímar

Fróðleikur

Oolong te

Oolong te er hálfgerjað te. Þess er fyrst og fremst neytt í Kína og Taiwan en er að ryðja sér rúms í Evrópu.

Lesa mola  |  Sjá fleiri mola

Við mælum með

Umhverfismál

Við látum verkin tala.
Sjá nánar