Kaffifróðleikur

Ástríða fyrir góðu kaffi er grunnurinn að öllu sem við gerum. Við kaupum meirihlutan af kaffibaununum beint af bónda, bændurnir okkar hafa allir sömu ástríðu og við fyrir góðu kaffi og hafa mikinn metnað í að rækta eins góðar kaffibaunir og hægt er. En það er ekki nóg að hafa gott hráefni, allt ferlið frá baun í bolla skiptir máli. Það sem neytendur ættu að hafa í huga er að kaffið sé eins ferskt og hægt er og helst nýmalað, búnaðurinn hreinn og hitastig vatns sem er notað. Hér að neðan er farið nánar yfir fróðleik sem kemur sér vel þegar að kemur að kaffigerð.

Brennslan

Dagleg brennsla

Að brenna kaffi er list. Þó við notum nútíma tækni til að aðstoða okkur er Ragnheiður brennslumeistari alltaf við stjórn. Hún hlustar, lyktar og horfir á baunirnar í ofninum, því hver kaffitegund hefur sín sérkenni. Daglega brennir hún í litlum og stórum skömmtum, sem tryggir að þú fáir alltaf nýbrennt kaffi. Kaffitár brennir kaffi yfirleitt á þrjá til fjóra mismunandi vegu. Þessar brennslur nefnast: meðal-, kúbönsk-, Vínar- og frönsk brennsla. Til að sannreyna gæðin fer fram smökkun á hverjum degi í sérstöku smökkunarherbergi og tilraunastofu Kaffitárs. Brennslumeistari okkar, Ragnheiður Hólm Sævarsdóttir, hefur mjög þjálfaða bragðlauka og dreypir á kaffinu þar til baunirnar ná að framfæra sínar allra bestu hliðar. Hlutverk brennslumeistarans er því mjög mikilvægt, og næmni hans getur gert gott kaffi jafnvel enn betra.

Blöndun og smökkun

Þegar við búum til kaffiblöndur sameinum við ólíkt bragð og mismunandi brennslustig. Við smökkum og blöndum og smökkum aftur og aftur þar til takmarkinu um sinfóníu í bragði er náð. Margar af okkar blöndum hafa fylgt okkur frá fyrstu tíð, viðskiptavinum okkar til ánægju.

Að búa til gott kaffi

Filter

Í fljótu bragði hugsum við um hina hefbundnu brúnu eða hvítu sem fást í kjörbúðunum. En einnig eru til taufilterar, stál- og álsigti, nælonsigti og þar fram eftir götunum. Mismunandi filterar skila mismunandi bragðeiginleikum í bollann.

Kvarnir

Það jafnast ekkert á við ferskan angan af nýmöluðu kaffi, svo ekki sé minnst á bragðgæðin sem góð kvörn skilar okkur. Mikilvægasti hluturinn þegar kemur að kaffigerð er kaffikvörnin. Þær hafa verið til í fjölda ára og þróast með ári
hverju. Kvarnir koma í ýmsum stærðum, gerðum og gæðum og þarf að hafa í huga ýmislegt, t.a.m. í hverskonar kaffiðgerð hún mun vera notuð í.

Mölun og hitastig vatns

Þegar hellt er upp á kaffi þarf að huga ýmsu. Lykillinn að góðum bolla er rétt mölun, rétt magn af kaffi á móti vatni og rekkingartíma. Hitastig vatns skipar einnig stórt hlutverk þar sem nokkrar gráður til eða frá er það sem skilar okkur ýmist góðum, eða misgóðum bolla.

Þrif á kaffibúnaði

Til að fá það besta úr kaffinu er mikilvægt að búnaðurinn sem notaður er til kaffigerðar sé hreinn. Hvort sem það er kvörnin sem malar kaffið, trektin eða greipin sem kaffið rennur í gegnum, stúturinn sem við freyddum mjólkina með og að sjálfsögðu ílátið sem kaffið fer í. Kaffitár selur efni og áhöld sem henta hvort sem þið þurfið töflur í kvarnirnar, hreinsiduft til að leysa upp óhreinindi í kaffibrúsanum eða vökva til að leysa upp mjólkurfituna á
freyðistútnum og freyðikönnunni.

Mismunandi uppáhellingaraðferðir

Chemex

Hver sagði að vísindamenn gætu ekki hannað kaffikönnur?

Chemex kaffikannan var hönnuð árið 1941 af Peter J. Schlumbohm þýskum efnafræðidoktor. Hann nýtti reynslu sína og þekkingu af rannsóknarstofunni við hönnun og gerð kaffikönnunnar. Chemex kaffikannan er ekki aðeins dáð af
kaffiáhugamönnum um heim allan fyrir eiginleika sinn, heldur einnig fyrir útlit sitt og hönnun og á hún fastan sess á nokkrum af virtustu listasöfnum heims.

Eiginleikar Chemex kaffikönnunar, sem eiga m.a. uppruna sinn í lögun glasa sem notuð eru á rannsóknarstofunni, ásamt sérhönnuðum bréffilter skila tæru, fylltu og ilmandi kaffi. Allt kaffi nýtur sín vel í Chemex uppáhellingu.

Hæg uppáhelling (v60)

Gamaldags hæg uppáhelling í nýjum búning. Trektin er keilulaga með upphleyptum rákum sem hleypa lofti meðfram kaffifilternum sem aðstoðar kaffið að renna jafnt niður í könnuna. V60 trektin er hönnuð þannig að þú ert við stjórnvöldin þegar kemur að því hvernig kaffið bragðast eftir hvernig grófleika og kaffi þú velur. Allt kaffi nýtur sín vel í þessari uppáhellingu.

Hefbundin uppáhelling

Hefðbundnar uppáhellingarkönnur eru mjög mismunandi eftir gæðum. Þegar við hyggjumst eignast slíkan grip er gott að hún hiti vatnið upp í 96°c. Þegar vatnið rennur svo yfir kaffibeðið, hefur þá kólnað um 1-2 gráður. Þetta er vegna þess að það er kjörið hitastig fyrir trekkingu kaffis. Ekki nógu heitt vatn skilar okkur bolla sem er súr og bitur, en of heitt vatn gerir það að verkum að kaffið brennur við og verður líka biturt og oftrekt. Einnig er gott að hafa í huga að kannan sé ekki of lengi að hella upp á. Ákjósanlegast væri að hún væri ekki mikið lengur en 6-7 mínútur
svo kaffið oftrekkist ekki.

Heimilis Expressóvél

Expressóvél bruggar kaffi með því að þrýsta vatni nálægt suðupunkti í gegnum hitaketill (e. boiler) inní sturtuhaus vélarinnar og svo í gegnum kaffið sem er í greipinni.

Kaldar uppáhellingar (e.cold brew)

Kaldbruggað kaffi (e.coldbrew) er gert með því að láta grófmalað kaffi liggja í köldu vatni, geymt við stofuhita eða í kæli í átta til tólf klukkutíma. Köld bruggun nær að draga fram aðra bragðtóna í kaffinu heldur þegar það er bruggað með heitu vatni, en er sömuleiðis hærra í koffínmagni. Einnig er hægt að útbúa þykkni og nota þá meira magn af kaffi í könnuna sína og þynna það síðan út með köldu vatni áður en það sé drukkið.

Mokkakanna

Kaffikannan var hönnuð árið 1933 af Luigi di Ponti, en hann tók könnuna til verkfræðingsins Alfonso Bialetti sem svo fékk einkaleyfi á könnuna og gerði hana í þeirri mynd sem við þekkjum í dag. Strangt til tekið fæst ekki expressó úr mokkakönnu.

Pressukanna

Óvissa ríkir um uppruna þessarar uppáhellingar, en talið er að pressukannan hafi verið fundin upp í Frakklandi árið 1850. Kannan gekk undir ýmsa endurþróun og hönnun, að mestu hjá ítölskum hönnuðum, þar til árið 1929 þegar Attilio Calimani fékk einkaleyfi á endurhönnun sína og er hún í þeirri mynd sem við þekkjum í dag. Allar kaffitegundir henta vel í þessa pressukönnu.

Syphon

Uppáhelling sem krefst æfingar og vekur forvitni og áhuga þegar hún fer fram. Hönnunin á Syphon gerir það greinilegt að kaffikönnuninni var ekki ætlað að vera falin í eldhúsinu, heldur átti hún að njóta sín í borðstofunni þar sem flestir gátu borið hana augum.

Woodneck

Woodneck er uppáhellingarkanna frá Hario fyrirtækinu þar sem notast er við taufilter.