Saga Kaffitárs
Kaffitár var stofnað árið 1990, en þá var Aðalheiður Héðinsdóttir, nýkomin heim frá Wisconsin eftir að hafa búið þar um skeið og ákvað að selja bílinn sinn og kaupa sér sinn fyrsta brennsluofn. Þegar Aðalheiður dvaldi í Bandaríkjunum byrjaði hún að versla sér sérvalið kaffi sem hún malaði sjálf og fór á ýmis uppáhellingar námskeið og það má segja að ástríðan fyrir kaffinu kviknaði þar. Það var þá sem hún kynntist Victor Mondry , en hann er virtur kaffismakkari og hefur unnið til margra alþjóðlegra verðlauna. Hún samdi við hann að vinna launalaust á kaffihúsinu hans en í stað myndi hann kenna henni allt sem við kemur kaffi og rekstri. Aðalheiður vann hjá Victor Mondry í tæpt ár og þjálfaði bragðlaukana sína með að brenna og smakka hinar mismunandi kaffitegundir. Síðan þegar heim var komið leigði hún sitt fyrsta húsnæði í Holtsgötu 52 í Njarðvík, en þar voru fyrstu höfuðstöðvar kaffibrennslu Kaffitárs. Aðalheiður rak Kaffitár í 28 ár en í nóvember 2018 kaupir Nýja Kaffibrennslan Kaffitár. Nýja kaffibrennslan ehf. var stofnuð árið 2000 eftir samruna Kaffibrennslu Akureyrar og Kaffibrennslu Ó. Johnson & Kaaber. Þar sameinuðust tvær elstu kaffibrennslur landsins sem höfðu framleitt kaffi fyrir Íslendinga frá árinu 1924. Í dag starfar Aðalheiður enn hjá fyrirtækinu við innkaup af kaffi svo ljóst er að undir merkjum Kaffitárs hafi miklir reynsluboltar sameinað sína krafta.