KAFFIKLÚBBUR KAFFITÁRS Í JANÚAR

KAFFIKLÚBBUR KAFFITÁRS Í JANÚAR

Heimsmarkaðurinn

Innivera í kósígalla er það sem við mörg erum að upplifa þessa fyrstu daga ársins. Vinna heima er aftur tekin við hjá sumum okkar, en yfir háveturinn er margt verra en það.

Fréttir frá kaffiræktunarlöndunum eru í einstaka tilfellum góðar, annarstaðar eru bændur uggandi yfir uppskerunni og að fá fólk til að tína kaffiberin og vinna. Vandræði með skipaflutninga vegna Covid eru enn til staðar og ekki er farið að sjá til sólar í þeim efnum.

Heimsmarkaðsverð á kaffi hækkaði í haust all hressilega og hefur haldist hátt og nokkuð stöðugt síðan í nóvember. Bændur kætast yfir þessum hækkunum og kaffiunnendur líka. Hærra verð er í takt við almennar hækkanir á heimsmarkaði. Olía, áburður og launakostnaður bænda hefur aukist og verða því hækkanir á heimsmarkaðsverði kaffis vonandi til þess að bændur haldi áfram að rækta kaffi og skipta ekki yfir í aðra ræktun. Sanngjarnt verð fyrir kaffibaunirnar og stöðugleiki er það sem öll aðfangakeðjan óskar eftir. Við sem unnum góðu kaffi vonumst því eftir stöðugleika í verði til handa öllum. Ný yrki og vinnsluaðferðir verða til þegar bændur hafa tíma til að huga að tilraunum og vanda til verka. Það gera þeir ekki þegar dagurinn snýst einungis um nauðþurftir.

 

Brasílía Daterra

Lífrænt ræktað

Daterra ræktar örfáa sekki af lífrænt ræktuðu kaffi ár hvert. Og ár hvert óskum við eftir að fá nokkra sekki. Við fáum oftast helming af því sem við biðjum um því eftirspurnin er mikil. Í fyrrahaust fengum við nokkra sekki og erum við að smakka það í fyrsta skipti núna.

Okkur finnst kaffið hafa léttari fyllingu en áður en það er súpertært og með góðu kryddeftirbragði. Það má finna plómu og papæju. Kaffi sem líklega öllum líkar vel og er það gott í allar tegundir uppáhellingar.

 

Eþíópía Guji

Shakiso Natural

Eþíópía er kölluð fæðingarstaður kaffisins. Kaffitré vaxa villt um allt land og margir bændur eiga lítinn skika lands þar sem þeir rækta ýmislegt, þar á meðal kaffi.
Oromia er hérað eða fylki í suðvestur hluta Eþíópíu. Innan Oromia er svæðið Guji sem hefur á undanförnum árum vakið athygli fyrir gott kaffi og vert er að leggja nafnið Guji á minnið líkt og Sídamó og Yirgacheffe.

Guji Shakiso kaffið sem við erum með er svokallað kjörlendiskaffi (Microlot). Yrkið er Heirloom og undirtegundirnar 74110 og 74112. Þessar tegundir voru þróaðar á áttunda áratugnum hjá Rannsóknarmiðstöð landbúnaðarins vegna mótstöðu yrkisins gegn kaffitrjáasjúkdómum. Móðurtréð kom af svæðinu. Númerið 74 gefur til kynna hvenær byrjað var að rannsaka yrkið, sem nú er algengt um allt Guji svæðið. Trén eru stutt og þétt með litlum laufum og berjum og þar af leiðandi líka litlum baunum.

Berin eru látin vera á trjánum þar til þau eru orðin djúprauð og þá tínd og þurrkuð á þurrkborðum í ca 15 – 20 daga. Berjunum er snúið og þau hreyfð til og frá svo þau ofþorni ekki eða mygli. Ekkert vatn er notað við þessa vinnslu og er hún kölluð “Natural” aðferð. Breytt er yfir berin þegar sólin er hvað hæst á lofti svo þau ofhitni ekki og eins er breytt yfir á kvöldin til að ekki komi dögg á berin þegar kólnar. Þegar kaffiberin hafa þornað og eftir er ca 11% raki í þeim eru þau flutt yfir í vinnslustöðina þar sem berin eru tekin af baununum og kaffið flokkað eftir stærð og þyngd. Að lokum er kaffið sett í sekki og þá er það tilbúið til útflutnings.

Þessi aðferð krefst nákvæmni og mikillar vinnu en þegar vel tekst til verður kaffið sætt með góða fyllingu og bragðendingu. Okkur í Kaffitári finnst að sætan og ávöxturinn séu í mjög góðu jafnvægi. Í bragði má finna sítrónubörk og hindber og blómaangan af skógartoppi. Þetta kaffi nýtur sín vel í öllum tegundum uppáhellingar en etv best í gömlu, góðu uppáhellingunni.