KAFFIKLÚBBUR KAFFITÁRS Í MAÍ
SÚMATRA PANTAN MUSARA
Pantan Musara kemur frá lítilli vinnslustöð í Takengonhéraði í Ache, sem er helsta kaffiræktunarhérað Súmötru. Vinnslustöðin þjónar bændum á svæðinu sem fyrir nokkrum árum urðu fyrir náttúruhamförum og þurftu í framhaldinu að byrja alveg upp á nýtt. Áhersla var lögð á kaffiræktun. Í Pantan Musara vinnslustöðinni er kaffið þvegið sem er frekar óvanalegt á Súmötru. Á þessum slóðum rignir mikið eða að meðaltali rúmlega helmingi meira en í Reykjavík. Það rignir nánast annan hvern dag allt árið um kring. Hitastigið er jafnt allt árið, 25°c á daginn og 15°c á nóttunni. Þegar kaffið er þvegið er það þvegið í “pergamino” skelinni sem umlykur kaffibaunina eftir að berið er fjarlægt. Slímuga húðin sem eftir er er látin gerjast í opnum tönkum í allt að 36 tíma. Kaffibaunirnar eru þá þvegnar og þurrkaðar undir plastþaki. Þessi aðferð tekur lengri tíma en hin hefðbundna “Wet Hulling” eða “Giling Basah” eins og heimamenn kalla það þegar Pergamino skelin er tekin utan af blautri kaffibauninni. Þurrkunin tekur þá skemmri tíma sem skiptir máli þegar rigning og mikill raki eru daglegt brauð.
Veðurfar á Súmötru er óvanalegt miðað við önnur kaffiræktunarlönd og það hefur áhrif á bragðið. Kjörlendiskaffi frá Súmötru er sjaldgjæft og því mikill fengur í að smakka það. Jarðtónarnir sem við tengjum sterkt við Súmötrukaffi eru ekki eins fyrirferðarmiklir hér. Í staðinn fáum við sætkenndan kryddkeim, karamellu og appelsínubörk. Jafnvægi í bragði og með þokkafullu eftirbragði. Oftast er Súmatran hjá Kaffitári brennd í Vínarbrennslu en hér er kaffið brennt aðeins minna til að allir tónar kaffisins fái að njóta sín.
KÓLUMBÍA LA PALMA
Franceny Ruiz Constain kemur frá kaffiræktunarfjölskyldu. Hún segist hafa ánægju af því að rækta kaffi því það er lögleg ræktun sem skapar fjölda fólks vinnu. Hún byrjaði með 1000 tré á örfáum hekturum en hefur stækkað uppí 10 hektara og fjölgað trjánum all verulega.
Eftir að berin er tínd eru þau látin forgerjast í viðartanki í ca 20 tíma. Þá eru berin tekið utan af baununum og baunirnar settar í leirtank og þar gerjast þær í aðra 20 tíma. Baunirnar er þá þvegnar þrisvar sinnum þar til þær eru stamar og tandurhreinar. Þurrkunin fer fram undir þaki svo döggin kvölds og morgna hafi ekki áhrif á þurrkunina sem tekur ca 15 daga.
Yrkið sem Franceny er aðallega með er Colombia. Það er afbrigði af Catimor sem aftur er afbrigði af Caturra og Timor. Yrkið þykir harðgert fyrir kaffisýkingum og gott á bragðið.
La Palma búgarðurinn er í El Tambohéraði í Caucafylki sem liggur að Kyrrahafinu. Vegna hafsins í vestri og fjalla í austri er kaldara í Cauca en í öðrum kaffiræktunarhéruðum landsins. Kaffi frá Cauca er oft bjart og tært með miðlungsfyllingu. Það á við um La Palma enda vann það til verðlauna í keppni í Kólumbíu sem kallast “Best Cup”. Kaffið er tært og safaríkt og það má finna ananas og skarpt sítrusbragð. Margslungið kaffi og bollinn fullur af sumaryl. Við mælum með uppáhellingu eða pressukönnu til að njóta alls sem kaffið hefur uppá að bjóða.
Verðið á sendingunni er 2.900 kr. Sendingarkostnaður er 1.300 kr.