Kaffiklúbbur Kaffitárs í ágúst

Kaffiklúbbur Kaffitárs í ágúst

Espresso Yellow

Þetta er kaffiblanda sem eigendur á Daterra búgarðinum ákváðu að gera fyrir þá sem unna góðri fyllingu, hunangi og dassi af ávexti.

Kaffið í pökkunum er blanda af tveimur mismunandi brennslum. Uppistaðan er dökk brennsla. Ljósri brennslu af sama kaffi er blandað í litlu hlutfalli saman við til að fá aðeins meiri breidd í bragðið og aðeins meiri ávöxt.

Þessi brennsla er tilvalin í baunavélar, expressóvélar og mokkakönnur. Í uppáhellingu er kaffið einnig afbragð og það þolir vel mjólk í bollann, að maður tali nú ekki um hellt uppá sterkt, sett á klaka og með smá rjómalögg.

Í litla pokanum er ljósbrennt Espresso Yellow sem gaman er að bera saman við kaffið sem er meira brennt. Svona hefur brennslan áhrif á bragð…

Í Espresso Yellow eru tvö yrki, Paraiso og Catuaí. Í Brasilíu eru aðallega ræktuð fjögur yrki. Bourbon, Catuaí, Acaiá og Mundo Novo sem er algengast. Frá þessum yrkjum eru svo margar undirtegundir eins og gult og rautt Bourbon, gult og rautt Catuaí og margar tegundir af Mundo Novo.

Daterra búgarðurinn.

Catuaí er blendingur af Mundo Novo og gulu Caturra. Þetta afbrigði var búið til í landbúnaðarháskóla í Brasilíu og 1968 var farið að nota það. Paraiso er annar blendingur sem þykir ákjósanlegur vegna mótstöðu við ryðsvepp sem stundum herjar á kaffiplönturnar.

Espresso Yellow er ræktað í 1150 m hæð yfir sjávarmáli. Vinnsluaðferðin er Natural og er kaffið þurrkað fyrst á stéttum og að lokum í þurrkara.

Hér má sjá muninn á dökkri og ljósri brennslu Kaffitárs á Espresso Yellow kaffibaununum, en í þetta sinn er brennslunum tveim blandað saman.

 

Níkaragúa Cortes

Níkaragúa Cortes frá Ricardo Rosales og fjölskyldu er alltaf til í kaffibrennslu Kaffitárs og hefur verið svo í hartnær 20 ár. Ljúft, súkkulaði, smá karamella, ávöxtur og ferskur ilmur.

Gott allan daginn og kaffi sem mjög, mjög mörgum líkar enda uppistaðan í einu vinsælasta kaffi landsins, Morgundögg. Hér er Cortes hreint og tært og brennt í meðalbrennslu.

Cortes kemur frá tveimur búgörðum í Jinotega héraði í Níkaragúa, Jesús Maria og Montesol. Búgarðar þessir eru í eigu Rosales bræðranna. Þeir, ásamt tveimur öðrum bændum eiga og reka þurrvinnslustöðina Bencafe.

Í Bencafe er kaffibaununum blandað saman og úr verður Cortes kaffið sem Kaffitár hefur keypt í áraraðir.

Yrkin sem eru í Cortes eru: Parainema, Catuaí, Marsellesa, Catimor, Caturra.

Parainema er blendingur úr yrkjum frá Tímor og Kostaríka. Ræturnar eru langar og sterkar og plantan þykir einstaklega góð í mismunandi jarðvegi, þolir vind betur en mörg önnur tré og svo er hún ekki móttækileg fyrir ryðsveppi og annarri óværu. Og það sem best er fyrir okkur sem drekkum kaffi er mikil uppskera og gott bragð.

Parainema blendingurinn varð til í landbúnaðarstofnun Hondúras og þar eins og í Níkaragúa hefur yrkið breiðst út. Parainema yrkið hefur unnið til verðlauna í Cup of Excellence í Hondúras.

Frá heimsókn Aðalheiðar til Rosales bræðranna í Níkaragúa.

Níkaragúa Cortes kaffibaunirnar, hráar og í meðalbrennslu.

Níkaragúa Cortes er uppistaðan í okkar vinsælasta kaffi, Morgundögg.

 

Verðið á sendingunni er 2.900 kr. Sendingarkostnaður er 1.300 kr.

SKRÁ MIG Í KAFFIKLÚBB KAFFITÁRS