Kaffiklúbbur Kaffitárs í febrúar

Kaffiklúbbur Kaffitárs í febrúar

Prótea

Kaffiblanda frá Brasilíu og Búrúndí

Daterrabúgarðurinn er í Cerradofylki í Brasilíu. Cerrado er eitt mikilvægasta, suðræna graslendissvæði heims „savanna“. Þar er fjölbreytileiki plantna og dýra gífurlegur, um 10.000 plöntutegundir og nærri 200 tegundir spendýra.

Búrúndí einkennist af sígrænu runnalendi, graslendi og regnskógum. Í Búrúndí er mikil fátækt sem hefur orðið til þess að gróðurlendi hefur látið undan beit og ágangi manna. Litlu fé er varið í að vernda náttúruna og þar með dýralíf. Alþjóðlegar stofnanir hafa af þessu áhyggjur, en vandamálið er ekki einskorðað við Búrúndí, eins og við vitum.
Blómið Prótea er nefnt eftir grískum sjávarguði, Proteus sem sagt er að hafi haft spádómsgáfu. Prótea blómið finnst bæði í Búrúndí og í Cerrado í Brasilíu því er þetta nafn á kaffiblöndunni. Undanfarin ár hefur Prótea verið algengt í blómvöndum á Íslandi, en hvort þau blóm koma frá Búrúndí eða Brasilíu er ekki gott að segja.
Búrúndí Inzahabu Mukingiro er ræktað í 1720 metrum yfir sjávarmáli og er Bourbon yrki. Kaffið er þvegið og þurrkað á þurrkborðum. Í bragði er þéttur ávöxtur, mjúk fylling og bragð af rúsínum og karamellu.
Daterra Blossom er ræktað í 1100-1200 metrum yfir sjávarmáli og er Guarany yrki. Kaffið er þurrkað með leifum af kaffiberinu á og ekkert vatn er notað við vinnsluna. Í bragði finnst mangó, mjólkursúkkulaði, karamella og vanilla.

Blanda af 60% Búrúndí og 40% Blossom gefur einstaklega mjúkt kaffi þar sem ávöxturinn minnir á þroskað mangó og bourbonvanillu. Sætan verður fyrirferðarmeiri í blöndunni en í tegundunum einum og sér og í hugann kemur gamli góði perubrjóstsykurinn. Bragðið dansar á tungunni og lifir lengi.

 

 

Selebes Kalossi

Raja Toraja

Selebes Kalossi Raja Toraja kemur frá eyjunni Súlavesi í Indónesíu.


Kaffið er ræktað af mörgum smábændum sem búa í 1200 m. hæð yfir sjávarmáli í vestur hluta Súlavesi. Torajafólkið sem þar býr hefur ræktað kaffið í áratugi og enn þann dag í dag eru notaðar sömu aðferðir og forfeðurnir notuðu.

Samdægurs og kaffið er tínt af trjánum er berið tekið af baununum heima við bæ og einnig slímuga húðin sem kölluð er “mucilage.” Þetta er tekið af með höndum eða í heimagerðum völsurum. Baunirnar eru þurrkaðar á plastmottum fyrir framan húsin í nokkra daga og þá eru þær fluttar í nærliggjandi vinnslustöð.

Vinnslustöðin tekur skelina “pergamino” utan af baununum sem enn eru töluvert rakar. Þessi aðferð gefur baununum bláan lit, mikla fyllingu og minni ávöxt en hefðbundin aðferð þar sem baunirnar eru þvegnar með vatni og mucilegið látið gerjast af í tönkum. Blái liturinn dofnar með tímanum og er oft hægt að sjá á kaffi frá Indónesíu hversu langt er síðan það var tínt af trjánum, einfaldlega með því að skoða litinn.

Eftir að baunirnar eru komnar úr skelinni er kaffið þurrkað í ca 12.5 % raka og þá er kaffið stærðarflokkað, gallar handtíndir úr á færibandi og að lokum er kaffið sett í sekki og flutt úr landi.

Selebes Kalossi Raja Toraja er bragðmikið kaffi með mjúkum kryddtónum. Ávöxturinn minnir á plómu og sætan á hlynsíróp. Selebes er frábært kaffi í allar tegundir uppáhellingar, expressó sem og uppáhelling og allt þar á milli. Mjólkurskúfur á hér vel við.



Njótið þess að drekka gott kaffi inni í hlýjunni þegar vindurinn blæs úti.

Góðar stundir, Aðalheiður.

 SKRÁ MIG Í KAFFIKLÚBB KAFFITÁRS