Kaffiklúbbur Kaffitárs í Maí
Fróðleiksmoli: Vinnsla
Vinnsla á kaffi fer fram eftir að berin eru tínd af trjánum og hefur mikil áhrif á það hvernig kaffið smakkast að lokum. Það má segja að vinnsla og þurrkun sé almennt þrenns konar: Þvegið, hunang eða náttúruleg.
Þvegið
Berið fjarlægt með vélum. Baunirnar settar í vatnsbað og slímuga húðin á þeim er brotin niður með ensímhvörfum eða gerjun. Baunirnar eru inni í þunnri skel (pergamino). Eftir gerjun eru baunirnar þvegnar og að lokum þurrkaðar.
Hunang / Pulp Natural
Berið er fjarlægt en hluti af slíminu er látið halda sér og þannig er það þurrkað. Í Brasilíu er þessi aðferð kölluð Pulp Natural en í Mið-Ameríku er hún oftast kölluð Honey process.
Náttúruleg / Natural Process
Berin eru látin þroskast vel á plöntunni og eftir tínslu er þeim dreift á stétt eða þurrkborð. Berið er látið þorna alveg utan á baununum og er ekki fjarlægt fyrr en það er alveg þurrt. Þurrkun fer fram ýmist á stéttum, þurrkborðum eða inni í stórum þurrktromlum.
Brasilía Dutra
Bræðurnir Walter og Ednilson rækta kaffi á yfir 2.800 fermetrum lands. Stór hluti landsins er regnskógur, stærðarinnar björg og fjöll. Sumir segja að þetta landslag minni á bíómyndina Jurassic Park.
Einn þriðji hluti uppskerunnar er mjög góður og fellur undir skilgreiningu um „Specialty“ kaffi.
Kaffið er tært með góða fyllingu og bragðtóna af möndlum, dökku súkkulaði og heslihnetum. Hentar vel í baunavélar og expressó.
Staðsetning:
|
Sao Joao do Manhuaçu, Matas de Minas, Minas Gerais Brasilía
|
Hæð yfir sjávarmáli:
|
900-1.300 metrar
|
Árleg úrkoma:
|
1.200 mm
|
Meðal hitastig:
|
24°C
|
Uppskerutími:
|
Maí til ágúst
|
Yrki:
|
Gult Catuaí
|
Tínsla:
|
Handtínt af 90-140 manneskjum
|
Vinnsluaðferð:
|
Pulp Natural, samdægurs eftir tínslu
|
Þurrkun:
|
Sólþurrkað á þurrkborðum
|
Flokkun:
|
Stærðarflokkað með vélum
|
Perú San Pedro
Abelino Cordova ræktar kaffi nyrst í Perú á stað sem heitir San Ignacio í Cajamarca héraði. Jörðina sína kallar hann San Pedro. Abelino ólst upp við kaffiræktun á jörð foreldra sinna. Hann erfði lítinn landskika sem er í 1650 metra hæð og hóf sjálfur ræktun með konu sinni og barni. Í mörg ár seldi hann kaffiberin til milliliða í sveitinni eins og flestir hans nágrannar.
Þegar samvinnuvinnslustöðin San Ignacio var stofnuð kom í ljós að kaffið frá San Pedro var mun betra en allir héldu og var nógu gott til að selja sem “Specialty” kaffi og undir eigin nafni. Þetta var eins og að vinna lottóvinning.
Allt breyttist með hærra verði sem fjölskyldan fékk fyrir kaffið. Hjónin hafa haldið áfram að rækta og vinna gott kaffi og eru sífellt að gera tilraunir með mismunandi vinnsluaðferðir eins og t.d. þessa sem við smökkum hér “Yellow Honey”. Yrkið er Caturra og er lífrænt ræktað þ.e. enginn tilbúinn áburður er notaður við ræktunina.
Yellow Honey er annað nafn yfir Honey eða Pulp natural. Kaffibaunirnar eru þurrkaðar á þurrkborðum og snúið jafnt og þétt til að fá sem jafnasta þurrkun. Þurrkunin getur tekið allt upp í 30 daga. Þá eru baunirnar sendar til Frontera San Ignacio þurrvinnslustöðvarinnar sem jafnar þurrkunina og stærðarflokkar baunirnar.
San Pedro kaffið er Caturra yrki. Það er sætt með góðum ávexti, smá marsipani og miðlungs fyllingu. Gott í uppáhellingu og í pressukönnu.
Verðið á sendingunni er 2.900 kr. Sendingarkostnaður er 1.300 kr.