Kaffiklúbbur Kaffitárs í október

Kaffiklúbbur Kaffitárs í október

Kenía Meru

Við rætur fjallsins Kenía er héraðið Meru. Samvinnufélagið Kangiri við austurhluta fjallsins sér um að þvo, þurrka, flokka og selja kaffi frá bændum í nærliggjandi sveitum.

Kenía Meru kalla þau kaffið, sem er sætt með góðri fyllingu. Ávöxturinn minnir á blóðappelsínur og sólber. Eftirbragðið kallar fram súkkulaði. Í bollanum breytist kaffið örlítið og er það jafnvel betra þegar það hefur kólnað aðeins.

Í Kenía eru tvö uppskerutímabil. 60% af uppskerunni eru tínd af trjánum og unnin frá apríl til nóvember. Seinni uppskeran er frá desember til júlí og kallast “Fly crop”.

Útflutningsaðilar í Kenía kaupa ekki kaffið af vinnslustöðum eða beint af bændum eins og tíðkast í flestum löndum. Allt kaffi er selt í gegn um Nairobi Coffee Exchange, markað sem ríkið rekur og haldinn er
í hverri viku.

Kaupmaður skoðar sýnishorn hjá Nairobi Coffee Exchange.

Í stjórn kauphallarinnar sitja fulltrúar tilnefndir af samvinnufélögum, félagi smábænda, félagi stórbænda, félagi vinnslu- og markaðsfyrirtækja, kaffistjórn Kenía og framkvæmdastjóri Kauphallarnefndarinnar.

 

Gvatemala Huehuetenango

Lífrænt

Gvatemala frá Huehuetenango er lífrænt ræktað kaffi rétt sunnan við landamæri Mexíkó. “Veivei” eins og héraðið er oftast kallað skartar háum fjöllum og þurru loftslagi.

Kaffi sem kemur þaðan er bjart og gott með miðlungs fyllingu. Í þessu kaffi má finna þroskaðar plómur, súkkulaði og vott af karamellu ásamt möndlum.

Gvatemala er kaffi sem flestum líkar við og þess vegna mælum við með því í veislur þar sem margt fólk er saman komið og smekkur manna misjafn.

Gvatemala er gott í hefðbundinni brennslu og eins aðeins meira brennt í Vínarbrennslu og heitir þá einfaldlega Vínarkaffi. Gaman er að smakka hvoru tveggja og hægt er að nálgast Vínarkaffið í vefverslun Kaffitárs eða á kaffihúsum Kaffitárs.

Mögnuð náttúrufegurð Laguna Brava í Huehuetenango, Gvatemala.

 

Mocha, Moka, Moca, Mocca, Mokka.

Hvernig sem mokka er skrifað er það mest ruglandi hugtak kaffiorðaforðans. Allt kaffi sem drukkið var í heiminum fyrir 200 árum kom frá Jemen og var flutt út í gegnum höfnina Mocha og þaðan kemur nafnið. Nú er þessi höfn aðeins fagrar rústir og minnismerki fornrar frægðar.

Orðið Mocha varð að samheiti yfir kaffi og þá það kaffi sem við köllum í dag kaffi frá Jemen.

Til að flækja þetta þá er kaffi frá Jemen ekki ósvipað í bragði og kaffi frá Harrar í Eþíópíu. Þessar þurrkuðu baunir frá Harrar eru oft seldar undir nafninu Mocha eða Moka.

Önnur ástæða fyrir ruglingi er að Jemen Mocha hefur stundum súkkulaðitóna í bragði sem hefur orðið til þess að margir tengja súkkulaði og kaffi saman. Mokka er því líka nafn yfir kaffi og súkkulaðidrykk blandað saman. Sviss Mokka er drykkur sem fæst um allan heim og er blanda af expressóskoti og heitu súkkulaði eða súkkulaðisósu. Oftast framreitt með þeyttum rjóma.

Mokka Express eða Moka Pot er nafn á ítölskum kaffikönnum sem fyrirtækið Bialetti framleiddi fyrst árið 1933. Könnur sem hægt var að laga í sterkt kaffi á eldavélinni heima og átti að líkja eftir expressókaffi úr exprssóvél sem Ítalir drekka á kaffihúsum eða börum. Við Íslendingar köllum þessar vinsælu könnur oftast Mokkakönnur.

Og hver á Íslandi kannast ekki við Mokkabolla. Litla, litríka bolla sem ömmur okkar áttu gjarnan inni í glerskáp, úr fínu postulíni sem sjaldan voru notaðir. Á þessum tíma drukku Íslendingar uppáhelling úr bollum eða þykkum glösum
og því voru mokkabollarnir bara spari eða upp á punt. Í dag eru litlir kaffibollar oftast kallaðir expressóbollar, enda expressódrykkurinn algengari nú en þegar ömmur okkar eignuðust sína mokkabolla.

 

Verðið á sendingunni er 2.900 kr. Sendingarkostnaður er 1.300 kr.

SKRÁ MIG Í KAFFIKLÚBB KAFFITÁRS